Ekki er um tæmandi talningu að ræða og geta aðrir þættir en hér eru upp taldir haft áhrif á verðmæti viðkomandi fjármálagernings. Þegar lagt er mat á hvort fjármálagerningur henti fjárfesti verður að hafa eftirfarandi í huga:
Fjármálagerningar fela í sér mismunandi áhættu og áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu er mikilvægt að kynna sér eðli viðkomandi fjármálagernings og áhættur tengdar honum. Lögð er áhersla á að fjárfestar gangi ekki til viðskipta með fjármálagerninga nema þeir geri sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem felst í slíkum viðskiptum og að teknu tilliti fjárhagslegs styrks og reynslu af slíkum fjárfestingum.
Gengi fjármálagerninga er að jafnaði mjög háð sveiflum í efnahagsmálum. Hagsveiflur eru mismunandi, bæði hvað varðar lengd og umfang, og áhrifa þeirra gætir með mismunandi hætti á ólíkar atvinnugreinar. Við ákvörðun um fjárfestingu þarf að gæta vel að almennum hagsveiflum, m.a. milli landa og ólíkra hagkerfa. Það getur leitt til taps sé ekki gætt að þessum þáttum eða séu mistök gerð við greiningu á efnahagsþróun þegar ákvörðun er tekin um fjárfestingu.
Fjárfestingar verður að meta með hliðsjón af verðbólgu- og verðbólguhorfum hverju sinni. Við ákvörðun um fjárfestingu ber að líta til áætlaðrar raunávöxtunar yfir tiltekið tímabil þar sem verðbólga er dregin frá nafnávöxtun. Fjárfestar verða því að meta raunvirði eigna sinna með hliðsjón af þeirri raunávöxtun sem ætla má að þær skili.
Skuldsettar fjárfestingar eru mun viðkvæmari fyrir breytingum á gengi þeirra fjármálagerninga sem keyptir eru en fjárfestingar sem ekki byggjast á lántöku. Fjárfestingar í fjármálagerningum sem fjármagnaðar eru með lánsfé eru áhættusamar fyrir fjárfesti. Annars vegar kann að vera krafist viðbótartrygginga ef verðþróun er á þá leið að verð fari yfir þær lánsheimildir sem tryggingin stendur undir. Ef fjárfesti reynist ókleift að leggja fram slíkar tryggingar kann veðhafi að neyðast til þess að selja fjármálagerninga í vörslu sinni á óhagstæðum tíma. Á hinn bóginn kann tapið sem leiðir af óhagstæðri breytingu á gengi fjármálagernings að vera umfram fjárhæð upphaflegu fjárfestingarinnar. Sveiflur í gengi veðsettra fjármálagerninga kunna að hafa neikvæð áhrif á getu til þess að endurgreiða lán.
Fjárfestar þurfa að gera sér grein fyrir því að vegna skuldsetningarþáttarins sem fylgir kaupum á fjármálagerningum með lánsfé verður viðkvæmni slíkra fjárfestinga fyrir gengissveiflum hlutfallslega meiri. Afleiðingin er sú að hagnaðarvonin eykst en að sama skapi eykst hættan á tapi. Þetta þýðir að áhætta af slíkum kaupum eykst eftir því sem vægi skuldsetningarinnar er meira.
Þrátt fyrir að útgefandi fjármálagerninga sé fyllilega gjaldfær, þá getur komið til þess að útgefandigeti ekki endurgreitt höfuðstól og/eða vexti láns á gjalddaga, og jafnvel að lánið lendi í algerum vanskilum, t.d. vegna þess að hann getur ekki keypt gjaldeyri af völdum gjaldeyrishafta stjórnvalda, lagabreytinga o.s.frv. Aðgerðir stjórnvalda geta hvort tveggja leitt til óstöðugleika í efnahag og stjórnmálum.
Að því er varðar fjármálagerninga í erlendri mynt eiga fjárfestar það á hættu að fá lán endurgreidd í mynt sem reynist ekki lengur skiptanleg vegna gjaldeyrishafta. Engar aðferðir eru til þess að verjast áhættu af þessu tagi.
Fjárfestingum í fjármálagerningum sem eru skráðir í erlendri mynt fylgir að jafnaði gjaldeyrisáhætta, þar sem gengi einstakra gjaldmiðla getur sveiflast verulega. Verði breytingar á gjaldeyri óhagstæðar getur það leitt af sér fjárhagslegt tjón fyrir fjárfesti. Efnislegir þættir sem áhrif hafa á gengi gjaldmiðla eru m.a. verðbólgustig í viðkomandi landi, mismunurinn á milli landsbundins vaxtastigs og vaxtastigs í öðrum löndum, mat á þróun atvinnulífs, stjórnmálaástandið í heiminum og öryggi fjárfestinganna sem um ræðir. Einnig getur stjórnmálaástand innanlands veikt gengi viðkomandi gjaldmiðils.
Sölutregða á markaði getur hindrað að fjárfestar geti selt fjármálagerninga á markaðsverði. Gera verður greinarmun á sölutregðu sem stafar af framboði og eftirspurn á markaði annars vegar og sölutregðu sem stafar af eiginleikum fjármálagerningsins eða viðskiptavenjum hins vegar.
Sölutregða sem á rætur í framboði og eftirspurn á markaði stafar af því að framboð fjármálagerninga eða eftirspurn eftir þeim á tilteknu verði er ekki fyrir hendi eða afar lítil. Við slíkar aðstæður kann að vera ógerlegt að bregðast við fyrirmælum um kaup eða sölu þegar í stað, eða jafnvel aðeins að hluta, eða á óhagstæðum kjörum. Að auki kann kostnaðurinn af viðskiptunum að vera hærri.
Sölutregða sem stafar af eiginleikum fjármálagerningsins eða af viðskiptavenjum á markaði getur til að mynda komið til vegna tafsamra framsalsferla vegna viðskipta með skráð hlutabréf, löngum uppgjörstöfum sem stafa af markaðsvenjum eða öðrum viðskiptahamlandi aðstæðum.
Sölutregða getur einnig stafað af tímabundnum lausafjárskorti, sem ekki er hægt að mæta nægilega skjótt með sölu fjármálagerninga.
Gengi fjármálagerninga á markaði er viðkvæmt fyrir því sem kalla mætti huglæg afstaða markaðarins sem mótast af straum og stefnum, tilhneigingu og hegðun markaðsaðila, fréttum og skoðunum áhrifaaðila eða orðrómi. Markaðsvirði kann að sveiflast mjög á grundvelli slíkra huglægra þátta, óháð frammistöðu þeirra þátta sem standa undir verðmæti fjármálagerninga, t.d. rekstri eða stöðu fyrirtækja sem skráð eru á markaði.
Viðskipti með fjármálagerninga sem ekki hafa verið skráðir eða teknir til viðskipta á skipulegan markað, t.d. hjá Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland), eru mun áhættusamari en með skráða fjármálagerninga. Í tilviki óskráðra fjármálagerninga er oft skortur á upplýsingum og gagnsæi lítið, m.a. liggja oft litlar eða engar áreiðanlegar upplýsingar fyrir um útgefendur þeirra. Einnig er seljanleiki og verðmyndun þeirra að jafnaði minni en skráðra fjármálagerninga, sem leiðir til þess að lengri tíma getur tekið að koma óskráðum fjármálagerningum í verð og meiri óvissa fylgir verðlagningu þeirra. Þá er rekstur óskráðra félaga oft á tíðum viðaminni en hjá skráðum félögum, en rekstur minni félaga er jafnan viðkvæmari fyrir breytingum í efnahagsumhverfi og/eða breytingum sem tengjast rekstri viðkomandi félags eða atvinnugrein þess, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar.
Skuldabréf er skuldaviðurkenning þess efnis að útgefandi bréfsins heitir því að greiða eiganda bréfsins tiltekna peningaskuld á ákveðnum tíma með þeim vaxtakjörum sem bréfið tilgreinir. Skuldabréf er kröfuréttarlegur gerningur, þ.e. kaupandi bréfsins er lánveitandi og á hann kröfu á hendur útgefandanum (skuldaranum). Skilmálar skuldabréfa geta verið mismunandi, en þeir eru ávallt ákveðnir fyrirfram, s.s. vextir og endurgreiðsla skuldar. Vextir geta verið fastir eða breytilegir og skuldabréf geta verið verðtryggð eða óverðtryggð. Þá eru skuldabréf ýmist gefin út á handhafa eða skráð á tiltekinn eiganda.
Helstu eiginleikar skuldabréfa eru þeir að ávöxtunarkrafa þeirra ræðst af vaxtagreiðslum og gengishækkun bréfsins eftir atvikum. Skuldabréf eru gefin út til mis langs tíma, þ.e. endurgreiðslur geta farið fram á mismunandi mánaða eða árafjölda. Endurgreiðsla skuldabréfa fer fram á umsömdum gjalddögum og fara vextir eftir skilmálum lánsins, en algengt er að vextir skuldabréfa séu tengdir markaðsvöxtum (t.d. REIBOR, LIBOR eða EURIBOR).
Útgefandi skuldabréfa getur orðið ófær, tímabundið eða varanlega, um að greiða vexti eða endurgreiða lánið. Gjaldfærni útgefanda getur breyst eftir almennri efnahagsþróun og/eða vegna breytinga sem tengjast rekstri útgefandans eða atvinnugrein hans, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar. Ef sjóðstreymi versnar hjá útgefanda getur það haft bein áhrif á gengi fjármálagerninga sem hann gefur út. Á sama hátt getur lánshæfismat útgefanda tekið breytingum vegna jákvæðrar og/eða neikvæðrar þróunar í starfsemi útgefanda.
Óvissa um framtíðarþróun vaxtastigs hefur í för með sér að kaupandi skuldabréfs með föstum vöxtum tekur áhættu á að gengi bréfsins lækki ef vextir hækka. Því lengri sem lánstíminn er og því lægra sem vaxtastigið er, þeim mun viðkvæmari eru skuldabréfin fyrir hækkun markaðsvaxta.
Útgefandi skuldabréfs kann að setja í bréfið ákvæði sem heimilar honum að endurgreiða eiganda skuldabréfsins fjárhæð þess ef markaðsvextir lækka. Því kann raunveruleg ávöxtun að vera óhagstæðari fjárfestinum en áætluð ávöxtun.
Skuldabréf geta falið í sér heimild fyrir útgefanda til að innkalla skuldabréfin fyrir lokagjalddaga, t.d. ef vextir á almennum markaði lækka. Erfitt er að áætla líftíma skuldabréfa sem innkölluð eru. Því kann áætluð ávöxtun bréfanna að taka óvæntum breytingum.
Viðbótaráhætta kann að tengjast sumum tegundum skuldabréfa, t.a.m. bréfum með breytilegum vöxtum (e. floating rate notes og reverse floating rate notes), afsláttarskuldabréfum (e. zero coupon bonds), erlendum skuldabréfum, breytanlegum skuldabréfum, vísitölutryggðum skuldabréfum, víkjandi skuldabréfum o.fl. Að því er varðar skuldabréf af þessum toga ættu fjárfestar að kynna sér áhættu þeirra með því að fara yfir lýsingar þeirra og skilmála og kaupa ekki slík bréf fyrr en þeir eru fullvissir um að þeir hafi skilning á allri áhættunni sem þeim fylgja.
Að því er varðar víkjandi skuldabréf, ættu fjárfestar að spyrjast fyrir um rétt þeirra í samanburði við aðrar skuldbindingar útgefanda. Ef útgefandi verður ógjaldfær eru skuldabréf af þessu tagi ekki greidd fyrr en allir aðrir rétthærri lánardrottnar hafa fengið greitt.
Breytanleg skuldabréf fela í sér þá áhættu að fjárfestir fái ekki fullnaðarendurgreiðslu, heldur einungis fjárhæð sem svarar til undirliggjandi fjármálagerninga á gjalddaga.
Hlutabréf er skírteini um réttindi hluthafa í hlutafélagi. Þessi réttindi eru fjárhagsleg eignarréttindi sem ákveðin eru með lögum og samþykktum þess félags sem í hlut á. Hlutabréf eru viðskiptabréf og gilda um þau allar hefðbundnar reglur sem um slík bréf gilda, þ.á m. um framsal.
Hlutabréf eru að öllu jöfnu áhættusamari en skuldabréf. Sú áhætta er einkum fólgin í því að verð á hlutabréfum sveiflast meira en verð skuldabréfa. Fjárfesting í hlutabréfum getur þó verið arðsamari en fjárfesting í skuldabréfum þegar til lengri tíma er litið og kemur ávöxtunin fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi birtist hún sem breyting á verði eða gengi viðkomandi hlutabréfa og í öðru lagi geta eigendur hlutafélaga átt von á því að fá greiddan arð af hlutabréfaeign sinni. Með því að dreifa hlutabréfaeign sinni með kaupum á mörgum ólíkum fyrirtækjum er hægt að draga verulega úr þeirri áhættu sem tengd er einstökum hlutafélögum.
Ekkert kröfuréttarsamband er á milli hluthafans og útgefanda hlutabréfsins, þ.e. félagsins, ólíkt skuldabréfum. Hluthafinn leggur fram hlutafé og eignast þar með hlutdeild í mögulegum hagnaði félagsins. Fjárfestingin er því háð rekstri félagsins og á fjárfestirinn á hættu að tapa allri fjárfestingunni ef allt fer á versta veg í rekstri félagsins.
Verðmæti hlutabréfa er afar sveiflukennt og eykur það hættu á því að fjárfestir bíði fjárhagslegt tjón af fjárfestingu sinni. Sveiflur á verðmæti hlutabréfa til skemmri og lengri tíma geta verið ófyrirsjáanlegar. Gera verður greinarmun á almennri markaðsáhættu og þeirri áhættu sem beint tengist félaginu sjálfu. Báðir áhættuþættir, saman eða hvor í sínu lagi, hafa áhrif á gengisþróun hlutabréfa.
Arður til hluthafa er háður afkomu félagsins. Ákvörðun um útgreiðslu arðs er að jafnaði tekin á hluthafafundi. Ef afkoma félagsins er slæm og hagnaður lítill eða enginn, kunna arðgreiðslur að minnka eða jafnvel falla niður.
Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Rekstrarfélög geta einnig stofnað sjóði sem ekki veita viðtöku fé frá almenningi og gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Það eru til margar gerðir sjóða með mismunandi fjárfestingarstefnu og þær lagareglur sem um starfsemina gilda geta einnig verið mismunandi. Sjóðir eru ýmist opnir eða lokaðir. Í opnum sjóðum er heildarhlutafé ekki ákveðið fyrirfram, sem þýðir að fjöldi hluta og þátttakenda er ekki ákveðinn. Sjóðurinn getur gefið út fleiri einingar eftir eftirspurn og getur einnig innleyst einingar. Sjóðnum er skylt að innleysa einingar á tilgreindu innlausnarvirði og samkvæmt samningsákvæðum. Þegar um lokaða sjóði er að ræða þá er heildarhlutafé óbreytt nema ráðstafanir séu gerðar til þess að breyta því. Ólíkt opnum sjóðum er ekki innlausnarskylda á einingum í lokuðum sjóðum.
Fjárfesting í sjóðum getur falið í sér eftirfarandi áhættu og er fjárfsetum ráðlagt að kynna sér fjárfestingarstefnu viðkomandi sjóðs áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin.
Starfsemi og árangur einstakra sjóða er háður hæfni stjórnar hans og starfsfólks. Sjóðstjóri tekur yfirleitt ákvarðanir um fjárfestingar í samræmi við fjárfestsingarstefnu sjóðsins. Ef samningi við sjóðstjóra eða lykilstarfsfólk er rift er ekki víst að takist að ráða hæft starfsfólk án þess að sjóðurinn verði fyrir tapi. Þá geta rangar ákvarðanir leitt af sér tap.
Um starfsemi einstakra sjóða getur farið eftir íslenskum eða erlendum lögum sem gæti þýtt að ákveðin fjárfestavernd eða hömlur á starfsemi sem eru í gildi í einu lögsagnarumdæmi eigi ekki við í ákveðnum tilvikum. Þá kann gildandi löggjöf að vera breytt með þeim hætti að áhrif hafi á starfsemi viðkomandi sjóðs eða verðmæti fjárfestingarinnar.
Sumir sjóðir fjármagna ákveðna þætti starfsemi sinnar með lántökum. Slík skuldsetning getur aukið áhættu í starfsemi sjóðs og haft kostnað í för með sér sem gæti leitt til lækkunar á virði hlutar fjárfestis í sjóði.
Fjárfestir í sjóði hefur yfirleitt lítinn sem engan rétt til að taka þátt í og/eða hafa áhrif á starfsemi viðkomandi sjóðs.
Fjárfestingarstefna sjóða getur verið mjög mismunandi. Sumir sjóðir eru sérhæfðir í fjárfestingum sínum og fjárfesta eingöngu í ákveðnum tegundum fjármálagerninga og/eða í ákveðnum löndum. Áhættan sem sjóðurinn ber er því fyrst og fremst tengd viðkomandi fjármálagerningum og löndum. Sumir sjóðir eru með skilgreinda fjárfestingarstefnu sem talin er mjög áhættusöm. Aðrir sjóðir fjárfesta á sviði þar sem mikil samkeppni ríkir og þar af leiðandi þar sem færri fjárfestingartækifæri eru fyrir hendi.
Ef sjóður fjárfestir í eignum sem ekki eru auðseljanlegar getur verið erfitt að meta virði hlutdeildarskírteina/hlutabréfa hans.
Undirliggjandi eignir geta verið margvíslegar og varðað bæði kaup og skortsölu fjármálagerninga. Sjóður getur verið háður markaðsáhættu og áhættu sem fólgin er í fjárfestingarstefnu hans, s.s. fjárfestingum utan skipulegra verðbréfamarkaða, skortsölu fjármálagerninga og skuldsettum kaupum og/eða sölu, sem geta leitt til taps fyrir viðkomandi sjóð. Sú áhætta fárfestis sem fólgin er í beinni fjárfestingu í hinum undirliggjandi eignum skiptir einnig máli við mat á þeirri áhættu sem fólgin er í fjárfestingu í viðkomandi sjóði.
Sjóðir fela í sér áhættu á gengisfalli og endurspeglar fallið lækkun á gengi fjármálagerninga eða gjaldmiðla sem mynda eignasafn sjóðsins. Því meiri sem eignadreifing sjóðsins er, því minni hætta er á tapi. Á móti kemur að áhættan er meiri í sérhæfðari fjárfestingum og þar sem eignadreifing er minni. Því er mikilvægt að gefa gaum að þeim almennu og sértæku áhættuþáttum sem fylgja þeim fjármálagerningum og gjaldmiðlum sem mynda sjóðinn. Fjárfestar geta m.a. aflað upplýsinga um sjóði með því að lesa lýsingar þeirra.
Afleiður eru fjármálagerningar sem breytast að verðgildi eftir verðmæti undirliggjandi eignar. Hin undirliggjandi eign kann að vera fjármálagerningur, markaðsvísitala, vaxtastig, gjaldmiðill, hráefnisverð eða jafnvel önnur afleiða.
Með valréttarsamningi (vilnun) (e. options) er átt við samning sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kauprétt) eða selja (sölurétt) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrirfram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki (lokadegi) eða innan tiltekinna tímamarka (gildistíma valréttar). Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans. Allar breytingar á verðmæti andlagsins valda hlutfallslega meiri breytingu á verði valréttarsins. Seljandi valréttarins ber óafturkræf skylda til þess að efna samninginn meðan kaupanda valréttarins er frjálst að nýta rétt sinn eða ekki.
Með framtíðarsamningi (e. futures) er átt við staðlaðan og framseljanlegan samning sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrirfram ákveðnum tíma. Oft er verðmæti framtíðarsamninga reiknað út daglega og samningsaðili reikningsfærður í samræmi við það. Með framvirkum samningi (e. forwards) er átt við óframseljanlegan samning þar sem kveðið er á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tilekna eign fyrir ákveðið verð á fyrirframákveðnum tíma. Uppgjör slíkra samninga getur ýmist falist í afhendingu á undirliggjandi verðmæti eða í fjárhagslegu uppgjöri. Hvort sem um er að ræða kaup á stöðluðum framvirkum samningi eða sölu á undirliggjandi eign er upphaflegt álag ákveðið um leið og samningurinn er gerður. Álagið er yfirleitt sett fram sem hundraðshluti af verðmæti samningsins. Almennt getur fjárfestir hvenær sem er á samningstímanum gert upp samninginn eða lokað honum fyrir samningslok, annað hvort með því að selja samninginn eða með því að gera mótstæðan samning. Uppgjör bindur enda á þá stöðu sem tekin hefur verið og hagnaður eða tap sem safnast hefur upp fram að uppgjöri er innleyst. Samningum sem ekki hefur verið lokað fyrir uppgjör verða aðilar að standa við. Samninga sem hafa áþreifanleg verðmæti sem undirliggjandi eign má efna með því að afhenda eignina. Ef eign er afhent þarf að efna samningsákvæðin að fullu, en ef gert er ráð fyrir samningsuppgjöri með reiðufé þarf aðeins að greiða mismuninn á samningsverðinu og markaðsverðinu á greiðslutíma. Því þurfa fjárfestar að hafa meira fjármagn tiltækt vegna samninga sem kveða á um afhendingu undirliggjandi eignar en vegna samninga sem kveða á um uppgjör með reiðufé.
Með skiptasamningi (e. swaps) er átt við samning sem kveður á um að hvor samningsaðila greiði hinum fjárhæð sem tekur mið af breytingum á hvoru viðmiðinu fyrir sig á samningstímanum. Nánar tiltekið skiptast samningsaðilar á greiðslum sem taka mið af breytingum á undirliggjandi viðmiðum, svo sem vöxtum eða gjaldmiðlum. Samningsaðilarnir ákveða við samningsgerðina hversu oft skiptin fara fram.
„Óhefðbundin“ fjárfesting er fjárfesting í innlendum eða erlendum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fylgja stefnu sem er allt öðru vísi en stefna um hefðbundnar fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum. Vogunarsjóðir („hedge funds“) eru algengasta óhefðbundna fjárfestingarformið. Fjárfestingarstefna þeirra felst oft í skortsölu, vogunaráhrifum og afleiðum. Fjárfestingar í sjóðum sem fjárfesta í óskráðum félögum falla einnig í þennan flokk (áhættufjármagn, fjármögnun fyrirtækjakaupa). Fjárfestir sem hefur áhuga á óhefðbundnum fjárfestingum, og sér í lagi aflandssjóðum, þarf að vera meðvitaður um þessa áhættuþætti. Áður en ráðist er í fjárfestingu þarf að grandskoða sjálfa fjárfestingarvöruna.
Á þessum vettvangi kann fjárfestingarstefnan að tengjast háu áhættustigi. Til dæmis geta vogunaráhrif haft þær afleiðingar að smávægileg breyting á markaði leiði til mikils gróða eða mikils taps. Í sumum tilvikum getur farið svo að fjárfestingin glatist alfarið.
Mjög oft hafa fjárfestar í óhefðbundnum fjárfestingum úr mjög litlum upplýsingum að moða. Fjárfestingarstefna sem sjóðir fylgja, sem kann að vera afar flókin, er oft á tíðum ógegnsæ fyrir fjárfesta. Stefnubreytingar, sem geta haft í för með sér verulega áhættuaukningu, eru oft óljósar fyrir fjárfestum, sem kunna jafnvel að vanmeta áhættuna illilega.
Óhefðbundnar fjárfestingar kunna að vera illseljanlegri en aðrar fjárfestingar. Stundum er seljanleikinn afar lélegur. Þannig er innlausn hluta í vogunarsjóðum aðeins möguleg ýmist á mánaðarlegum, ársfjórðungslegum eða árlegum grundvelli. Að því er varðar fjárfestingar í sjóðum sem kaupa óskráð hlutabréf kann binditíminn að vera allt að 10 ár eða meira.
Umtalsverður fjöldi sjóða á þessu sviði hefur bækistöðvar á aflandsfjármálamörkuðum (aflandssjóðir). Algengt er að slíkar aflandsstöðvar hafi lágmarkseftirlit með sjóðunum. Afleiðingin er sú að ýmiss konar vandkvæði eða tafir geta orðið við framkvæmd fyrirmæla um kaup eða sölu og ekki er hægt að kalla viðkomandi banka til ábyrgðar. Ekki er kerfislæg trygging fyrir því að ekki verði brotið á réttindum fjárfesta.