Öllum fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. Arctica Finance, ber samkvæmt lögum og reglugerðum að gera eftirfarandi:
Í framangreindu skyni hefur Arctica Finance útbúið eyðublöð sem viðskiptavinum ber að fylla út, undirrita og afhenda starfsmönnum Arctica Finance ásamt fylgigögnum. Starfsmenn Arctica Finance veita upplýsingar vegna þessara eyðublaða og fylgigagna.
Með eyðublöðum þessum ber að fylgja gögn, en starfsmenn Arctica Finance geta verið viðskiptavinum innan handar við öflun þeirra.
Meðal gagna þeirra sem allir viðskiptavinir verða afhenda fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. Arctica Finance, eru staðfest ljósrit af persónuskilríkjum allra sem koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart Arctica.
Viðskiptavinir í fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance þurfa að skrifa undir samning um sérhvert verkefni sem fyrirtækjaráðgjöf kann að taka að sér í hvert sinn. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk fyrirtækjaráðgjafar.
Viðskiptavinir í markaðsviðskiptum Arctica Finance þurfa auk áðurnefndra eyðublaða að skrifa undir almenna skilmála markaðsviðskipta. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk markaðsviðskipta.
Sú lagaskylda hvílir á Arctica Finance að gera sitt ítrasta til að hindra að rekstur og starfsemi Arctica Finance verði notuð til að þvætta fjármuni eða til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Í þessu skyni hefur Arctica Finance sett sér stefnu og reglur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, en í þeim leitast Arctica Finance við að uppfylla í hvívetna kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja hvað varðar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Hluti af skyldu Arctica Finance er að þekkja deili á viðskiptavinum sínum og starfsemi þeirra og því ber félaginu að gera áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum sínum, sem Arctica Finance uppfyllir m.a. með því að afla upplýsinga um viðskiptavini, bæði frá viðskiptavinum og úr gagnagrunnum.
Samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er Arctica Finance skylt að afla upplýsinga um raunverulega eigendur viðskiptavinar. Raunverulegur eigandi telst vera einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir viðskiptavini Arctica. Raunverulegur eigandi telst vera einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðila.
Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna dreifðs eignarhalds eða ef vafi leikur á um eignarhaldið, telst sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðila vera raunverulegur eigandi.
Arctica Finance ber einnig að afla upplýsinga um hvort viðskiptavinir eða raunverulegir eigendur þeirra falli undir áhættuhóp vegna stjórnmálalegra tengsla. Hið sama gildir um nána (*) fjölskyldumeðlimi raunverulegra eigenda eða nána samstarfsmenn. Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla teljast til að mynda þeir sem gegna eða hafa gegnt háttsettu starfi í opinberri þjónustu sem fellur undir eftirfarandi:
Upplýsingabæklingur Samtaka fjármálafyrirtækja
(*) Náinn fjölskyldumeðlimur: Foreldri, maki (þ.m.t. sambúðarmaki í skráðri sambúð), börn (þ.m.t. stjúpbörn) og makar barna.
Þeir viðskiptavinir Arctica Finance sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar njóta fullrar verndar samkvæmt lögum. Í því felst m.a. að Arctica Finance mun veita viðskiptavinum í flokki almennra fjárfesta upplýsingar um Arctica Finance og þá þjónustu sem félagið býður, þá fjárfestingarkosti sem í boði eru og þá áhættu sem þeim fylgja, auk upplýsinga um þau gjöld og þóknanir sem fylgja hverjum fjárfestingarkosti. Þegar almennum fjárfesti er veitt þjónusta í formi fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar mun fara fram mat á því hvort tiltekin tegund fjármálagerninga sé samrýmanleg hagsmunum viðkomandi viðskiptavinar. Í slíkum tilvikum er mat lagt á þekkingu, reynslu og fjárhagslegan styrk viðskiptavina, auk markmiða með viðskiptum.
Feli þjónusta Arctica Finance í sér annars konar þjónustu tengda verðbréfaviðskiptum en eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf mun félagið leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í því skyni að meta hvort þeir búi yfir nauðsynlegri vitneskju til að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem viðskiptunum fylgja. Athygli er vakin á því að þeim viðskiptavinum Arctica Finance sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar er heimilt að óska eftir því við Arctica Finance að verða flokkaðir sem fagfjárfestar. Við slíka flokkun afsala viðskiptavinir sér að hluta þeim réttindum og vernd sem þeir myndu annars njóta samkvæmt lögum en á móti koma frekari möguleikar á fjárfestingum í flóknum fjármálagerningum.
Til að slík beiðni verði tekin til greina verða viðskiptavinir að veita Arctica Finance ákveðnar upplýsingar og slík flokkun er háð samþykki Arctica Finance.
Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.
Eftirtaldir aðilar eru fagfjárfestar:
Arctica Finance mun því ekki leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í flokki fagfjárfesta sem uppfylla skilyrði 1. – 4. tölul. hér að ofan þegar kemur að verðbréfaviðskiptum þeirra.
Fjárhagslegur styrkur þeirra viðskiptavina Arctica Finance sem flokkaðir hafa verið sem fagfjárfestar samkvæmt ósk með vísan til 5. tölul. að ofan, er metinn þegar þeim er veitt þjónusta með fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu.
Viðskiptavinir í flokki fagfjárfesta geta óskað eftir því að vera færðir í flokk almennra fjárfesta og njóta þannig meiri verndar. Óski aðili eftir að vera fluttur í flokk almennra fjárfesta þá glatar hann möguleika á að eiga viðskipti með flóknari fjármálagerninga. Þá geta fagfjárfestar jafnframt óskað eftir því að verða færðir í flokk viðurkenndra gagnaðila, en við það missa þeir hluta þeirrar verndar sem þeir njóta sem fagfjárfestar. Slík flokkun er háð mati og samþykki Arctica Finance.
Þeir viðskiptavinir sem falla í flokk viðurkenndra gagnaðila njóta minnstrar verndar samkvæmt lögum. Á því er byggt að þeir hafi mestan fjárhagslegan styrk, reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu af öllum viðskiptavinum og þurfi því ekki jafn ríka vernd og almennir fjárfestar. Viðskiptavinir í hópi viðurkenndra gagnaðila geta óskað eftir því að flokkun þeirra verði breytt og þannig notið aukinnar verndar, ýmist sem fagfjárfestar eða almennir fjárfestar.
Þeir sem falla í flokk fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila þurfa að veita samþykki sitt fyrir flokkuninni.
Arctica Finance hefur sett sér reglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Reglunum er ætlað að styðja við að viðskiptavinir Arctica Finance leiti allra leiða til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína við framkvæmd viðskiptafyrirmæla þeirra og tilgreina þá viðskiptastaði (markaði) sem Arctica Finance framkvæmir viðskiptafyrirmæli viðskiptavina sinna á.
Í reglunum eru jafnframt settar fram þær forsendur sem starfsmenn Arctica Finance byggja á við framkvæmd viðskiptafyrirmæla, m.a. verð, kostnað, hraða og aðra þætti sem máli skipta.
Viðskiptavinir þurfa að veita samþykki sitt fyrir því að viðskiptafyrirmæli séu framkvæmd utan viðskiptavettvangs.
Reglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla
Arctica Finance hefur sett sér reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum, sem ætlað er að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina félagsins. Er þeim ætlað að stuðla að samræmdri greiningu og meðhöndlun á hagsmunaárekstrum og viðhafa árangursríkar skipulagslegar og stjórnunarlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og stjórna hvers konar hagsmunaárekstrum sem upp kunna að koma hjá félaginu. Með því að forðast hagsmunaárekstra er betur stuðlað að vernd viðskiptavina og trúverðugleika markaðarins.
Arctica Finance hefur sett reglur á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki og leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins, þar sem er skilgreint hverjir teljast til lykilstarfsmanna og hvaða kröfur Arctica Finance gerir til hæfis lykilstarfsmanna, en eðli máls samkvæmt eru gerðar strangari kröfur til þeirra en annarra starfsmanna.
Reglur um hæfi lykilstarfsmanna Arctica
Arctica Finance hefur í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sett sér reglur um meðferð upplýsinga um viðskiptavini. Í þeim reglum er tiltekið hvernig staðið skuli að miðlun upplýsinga til innra eftirlits, eftirlitsstjórnvalda og lögreglu og hvernig eftirliti með framkvæmd reglnanna er háttað.
Reglur um meðferð upplýsinga um viðskiptavini
Arctica Finance hefur í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og laga um verðbréfaviðskipti, með vísan til reglugerðar um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, sett sér reglur um verðbréfaviðskipti starfsfólks. Með reglunum er stefnt að því að koma í veg fyrir að viðskipti eigenda virkra eignarhluta, stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila, með fjármálagerninga, rekist á við hagsmuni viðskiptavina félagsins.
Reglur um verðbréfaviðskipti starfsmanna
Arctica Finance hefur sett sér persónuverndarstefnu í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018.
Persónuverndarstefna Arctica Finance
Arctica Finance hefur samþykkt stefnu um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð með vísan til laga um fjármálafyrirtæki, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Markmið stefnunnar er að skilgreina áherslur Arctica Finance í sjálfbærni (e. sustainability) og samfélagslegri ábyrgð (e. corporate social responsibility) og lýsa því hvernig Arctica Finance hyggst tileinka sér þær áherslur í starfsemi sinni. Um leið þjónar stefnan hlutverki leiðarvísis fyrir starfsmenn og stjórnendur sem skuldbundnir eru til að fara eftir efni stefnunnar.
Með sjálfbærni er átt við samþættingu þriggja meginstoða sem eru almannahagsmunir, hagnaður og heimurinn (e. people, profit, planet). Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint í Brundtland-skýrslu (1987) sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum“. Sjálfbærni lýsir því þegar áhersla er lögð á að nýta það sem í boði er án þess að það hafi skaðleg áhrif á jörðina og með því vonandi varðveita auðlindir jarðar fyrir komandi kynslóðir.
Með samfélagslegri ábyrgð er átt við að taka ákvarðanir sem snúast ekki einungis um eigin nærtækustu hagsmuni, heldur taka mið af UFS-þáttum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur skilgreint samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem „ábyrgð fyrirtækja á áhrifum sínum á samfélagið“.
Stefna Arctica Finance tilgreinir áherslur félagsins í umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS). Með áherslu á UFS-þætti er unnið að hagsmunum Arctica Finance, viðskiptavina félagsins og samfélagsins alls til framtíðar, og stuðlað að heilbrigðum viðskiptaháttum, góðum stjórnarháttum og jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti.
Auk UFS-þátta útlistar stefna Arctica Finance markmið félagsins um ábyrg innkaup og ábyrgar fjárfestingar.
Arctica skrifaði í september 2020 undir sameiginlega viljayfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar og aðila sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði, um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Með því skuldbatt Arctica sig til að taka tillit „til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þar má nefna markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030. Eftir atvikum er einnig litið til ESG/UFS, meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), UN Global Compact ofl.“
Arctica Finance hefur síðan í janúar 2019 verið aðili að IcelandSif, sem er fræðsluvettvangur ábyrgra fjárfestinga sem stuðlar að því að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Árlega tekur Arctica Finance saman skýrslu um ófjárhagslegar upplýsingar er tekur á UFS-þáttum og er hún birt í sérstökum kafla í ársreikningi sem má finna hér að neðan.
Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2023
Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2022
Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2021
Arctica Finance er skylt á grundvelli tekjuskattslaga að veita ríkisskattstjóra margvíslegar upplýsingar, þ.m.t. að standa árlega skil á upplýsingum um tekjur og eignir bandarískra skattaðila með vísan til bandarískra skattalaga (e. US Foreign Accounts Tax Compliance Act – FATCA), sem og að veita upplýsingar um aðra erlenda skattaðila á grundvelli CRS-staðals um upplýsingaskipti á fjárhagsupplýsingum (e. Common Reporting Standard).
Í þessum tilvikum er Arctica skylt að óska eftir og fá afhentar upplýsingar frá þeim viðskiptavinum sínum, svo sem hvort viðskiptavinur hafi svokölluð bandarísk einkenni, hvert sé skattaauðkenni hans (TIN – Tax Identification Number) o.s.frv.
Ekki er um tæmandi talningu að ræða og geta aðrir þættir en hér eru upp taldir haft áhrif á verðmæti viðkomandi fjármálagernings. Þegar lagt er mat á hvort fjármálagerningur henti fjárfesti verður að hafa eftirfarandi í huga:
Fjármálagerningar fela í sér mismunandi áhættu og áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu er mikilvægt að kynna sér eðli viðkomandi fjármálagernings og áhættur tengdar honum. Lögð er áhersla á að fjárfestar gangi ekki til viðskipta með fjármálagerninga nema þeir geri sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem felst í slíkum viðskiptum og að teknu tilliti til fjárhagslegs styrks og reynslu af slíkum fjárfestingum.
Gengi fjármálagerninga er að jafnaði mjög háð sveiflum í efnahagsmálum. Hagsveiflur eru mismunandi, bæði hvað varðar lengd og umfang, og áhrifa þeirra gætir með mismunandi hætti á ólíkar atvinnugreinar. Við ákvörðun um fjárfestingu þarf að gæta vel að almennum hagsveiflum, m.a. milli landa og ólíkra hagkerfa. Það getur leitt til taps sé ekki gætt að þessum þáttum eða séu mistök gerð við greiningu á efnahagsþróun þegar ákvörðun er tekin um fjárfestingu.
Fjárfestingar verður að meta með hliðsjón af verðbólgu- og verðbólguhorfum hverju sinni. Við ákvörðun um fjárfestingu ber að líta til áætlaðrar raunávöxtunar yfir tiltekið tímabil þar sem verðbólga er dregin frá nafnávöxtun. Fjárfestar verða því að meta raunvirði eigna sinna með hliðsjón af þeirri raunávöxtun sem ætla má að þær skili.
Skuldsettar fjárfestingar eru mun viðkvæmari fyrir breytingum á gengi þeirra fjármálagerninga sem keyptir eru en fjárfestingar sem ekki byggjast á lántöku. Fjárfestingar í fjármálagerningum sem fjármagnaðar eru með lánsfé eru áhættusamar fyrir fjárfesti. Annars vegar kann að vera krafist viðbótartrygginga ef verðþróun er á þá leið að verð fari yfir þær lánsheimildir sem tryggingin stendur undir. Ef fjárfesti reynist ókleift að leggja fram slíkar tryggingar kann veðhafi að neyðast til þess að selja fjármálagerninga í vörslu sinni á óhagstæðum tíma. Á hinn bóginn kann tapið sem leiðir af óhagstæðri breytingu á gengi fjármálagernings að vera umfram fjárhæð upphaflegu fjárfestingarinnar. Sveiflur í gengi veðsettra fjármálagerninga kunna að hafa neikvæð áhrif á getu til þess að endurgreiða lán.
Fjárfestar þurfa að gera sér grein fyrir því að vegna skuldsetningarþáttarins sem fylgir kaupum á fjármálagerningum með lánsfé verður viðkvæmni slíkra fjárfestinga fyrir gengissveiflum hlutfallslega meiri. Afleiðingin er sú að hagnaðarvonin eykst en að sama skapi eykst hættan á tapi. Þetta þýðir að áhætta af slíkum kaupum eykst eftir því sem vægi skuldsetningarinnar er meira.
Þrátt fyrir að útgefandi fjármálagerninga sé fyllilega gjaldfær, þá getur komið til þess að útgefandi geti ekki endurgreitt höfuðstól og/eða vexti láns á gjalddaga, og jafnvel að lánið lendi í algerum vanskilum, t.d. vegna þess að hann getur ekki keypt gjaldeyri af völdum gjaldeyrishafta stjórnvalda, lagabreytinga o.s.frv. Aðgerðir stjórnvalda geta hvort tveggja leitt til óstöðugleika í efnahag og stjórnmálum.
Að því er varðar fjármálagerninga í erlendri mynt eiga fjárfestar það á hættu að fá lán endurgreidd í mynt sem reynist ekki lengur skiptanleg vegna gjaldeyrishafta. Engar aðferðir eru til þess að verjast áhættu af þessu tagi.
Fjárfestingum í fjármálagerningum sem eru skráðir í erlendri mynt fylgir að jafnaði gjaldeyrisáhætta, þar sem gengi einstakra gjaldmiðla getur sveiflast verulega. Verði breytingar á gjaldeyri óhagstæðar getur það leitt af sér fjárhagslegt tjón fyrir fjárfesta. Efnislegir þættir sem áhrif hafa á gengi gjaldmiðla eru m.a. verðbólgustig í viðkomandi landi, mismunurinn á milli landsbundins vaxtastigs og vaxtastigs í öðrum löndum, mat á þróun atvinnulífs, stjórnmálaástandið í heiminum og öryggi fjárfestinganna sem um ræðir. Einnig getur stjórnmálaástand innanlands veikt gengi viðkomandi gjaldmiðils.
Sölutregða á markaði getur hindrað að fjárfestar geti selt fjármálagerninga á markaðsverði. Gera verður greinarmun á sölutregðu sem stafar af framboði og eftirspurn á markaði annars vegar og sölutregðu sem stafar af eiginleikum fjármálagerningsins eða viðskiptavenjum hins vegar.
Sölutregða sem á rætur í framboði og eftirspurn á markaði stafar af því að framboð fjármálagerninga eða eftirspurn eftir þeim á tilteknu verði er ekki fyrir hendi eða afar lítil. Við slíkar aðstæður kann að vera ógerlegt að bregðast við fyrirmælum um kaup eða sölu þegar í stað, eða jafnvel aðeins að hluta, eða á óhagstæðum kjörum. Að auki kann kostnaðurinn af viðskiptunum að vera hærri.
Sölutregða sem stafar af eiginleikum fjármálagerningsins eða af viðskiptavenjum á markaði getur til að mynda komið til vegna tafsamra framsalsferla vegna viðskipta með skráð hlutabréf, löngum uppgjörstöfum sem stafa af markaðsvenjum eða öðrum viðskiptahamlandi aðstæðum.
Sölutregða getur einnig stafað af tímabundnum lausafjárskorti, sem ekki er hægt að mæta nægilega skjótt með sölu fjármálagerninga.
Gengi fjármálagerninga á markaði er viðkvæmt fyrir því sem kalla mætti huglæga afstöðu markaðarins sem mótast af straumum og stefnum, tilhneigingu og hegðun markaðsaðila, fréttum og skoðunum áhrifaaðila eða orðrómi. Markaðsvirði kann að sveiflast mjög á grundvelli slíkra huglægra þátta, óháð frammistöðu þeirra þátta sem standa undir verðmæti fjármálagerninga, t.d. rekstri eða stöðu fyrirtækja sem skráð eru á markaði.
Viðskipti með fjármálagerninga sem ekki hafa verið skráðir eða teknir til viðskipta á skipulegum markaði, t.d. hjá Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland), eru mun áhættusamari en með skráða fjármálagerninga. Í tilviki óskráðra fjármálagerninga er oft skortur á upplýsingum og gagnsæi lítið, m.a. liggja oft litlar eða engar áreiðanlegar upplýsingar fyrir um útgefendur þeirra. Einnig er seljanleiki og verðmyndun þeirra að jafnaði minni en skráðra fjármálagerninga, sem leiðir til þess að lengri tíma getur tekið að koma óskráðum fjármálagerningum í verð og meiri óvissa fylgir verðlagningu þeirra. Þá er rekstur óskráðra félaga oft og tíðum viðaminni en hjá skráðum félögum, en rekstur minni félaga er jafnan viðkvæmari fyrir breytingum í efnahagsumhverfi og/eða breytingum sem tengjast rekstri viðkomandi félags eða atvinnugrein þess, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar.
2.1.1 Almennt
Skuldabréf er skuldaviðurkenning þess efnis að útgefandi bréfsins heitir því að greiða eiganda bréfsins tiltekna peningaskuld á ákveðnum tíma með þeim vaxtakjörum sem bréfið tilgreinir. Skuldabréf er kröfuréttarlegur gerningur, þ.e. kaupandi bréfsins er lánveitandi og á hann kröfu á hendur útgefandanum (skuldaranum). Skilmálar skuldabréfa geta verið mismunandi, en þeir eru ávallt ákveðnir fyrir fram, s.s. vextir og endurgreiðsla skuldar. Vextir geta verið fastir eða breytilegir og skuldabréf geta verið verðtryggð eða óverðtryggð. Þá eru skuldabréf ýmist gefin út á handhafa eða skráð á tiltekinn eiganda.
Helstu eiginleikar skuldabréfa eru þeir að ávöxtunarkrafa þeirra ræðst af vaxtagreiðslum og gengishækkun bréfsins eftir atvikum. Skuldabréf eru gefin út til mislangs tíma, þ.e. endurgreiðslur geta farið fram á mismunandi mánaða- eða árafjölda. Endurgreiðsla skuldabréfa fer fram á umsömdum gjalddögum og fara vextir eftir skilmálum lánsins, en algengt er að vextir skuldabréfa séu tengdir markaðsvöxtum (t.d. REIBOR, LIBOR eða EURIBOR).
2.1.2 Áhættuþættir
Útgefandaáhætta/ Gjaldfærnisáhætta
Útgefandi skuldabréfa getur orðið ófær, tímabundið eða varanlega, um að greiða vexti eða endurgreiða lánið. Gjaldfærni útgefanda getur breyst eftir almennri efnahagsþróun og/eða vegna breytinga sem tengjast rekstri útgefandans eða atvinnugrein hans, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar. Ef sjóðstreymi versnar hjá útgefanda getur það haft bein áhrif á gengi fjármálagerninga sem hann gefur út. Á sama hátt getur lánshæfismat útgefanda tekið breytingum vegna jákvæðrar og/eða neikvæðrar þróunar í starfsemi útgefanda.
Vaxtaáhætta
Óvissa um framtíðarþróun vaxtastigs hefur í för með sér að kaupandi skuldabréfs með föstum vöxtum tekur áhættu á að gengi bréfsins lækki ef vextir hækka. Því lengri sem lánstíminn er og því lægra sem vaxtastigið er, þeim mun viðkvæmari eru skuldabréfin fyrir hækkun markaðsvaxta.
Áhætta af uppgreiðslu
Útgefandi skuldabréfs kann að setja í bréfið ákvæði sem heimilar honum að endurgreiða eiganda skuldabréfsins fjárhæð þess ef markaðsvextir lækka. Því kann raunveruleg ávöxtun að vera óhagstæðari fjárfestinum en áætluð ávöxtun.
Innköllunaráhætta
Skuldabréf geta falið í sér heimild fyrir útgefanda til að innkalla skuldabréfin fyrir lokagjalddaga, t.d. ef vextir á almennum markaði lækka. Erfitt er að áætla líftíma skuldabréfa sem innkölluð eru. Því kann áætluð ávöxtun bréfanna að taka óvæntum breytingum.
Áhætta sem tengist tilteknum tegundum skuldabréfa
Viðbótaráhætta kann að tengjast sumum tegundum skuldabréfa, t.a.m. bréfum með breytilegum vöxtum (e. floating rate notes og reverse floating rate notes), afsláttarskuldabréfum (e. zero coupon bonds), erlendum skuldabréfum, breytanlegum skuldabréfum, vísitölutryggðum skuldabréfum, víkjandi skuldabréfum o.fl. Að því er varðar skuldabréf af þessum toga ættu fjárfestar að kynna sér áhættu þeirra með því að fara yfir lýsingar þeirra og skilmála og kaupa ekki slík bréf fyrr en þeir eru fullvissir um að þeir hafi skilning á allri áhættunni sem þeim fylgja.
Að því er varðar víkjandi skuldabréf, ættu fjárfestar að spyrjast fyrir um rétt þeirra í samanburði við aðrar skuldbindingar útgefanda. Ef útgefandi verður ógjaldfær eru skuldabréf af þessu tagi ekki greidd fyrr en allir aðrir rétthærri lánardrottnar hafa fengið greitt.
Breytanleg skuldabréf fela í sér þá áhættu að fjárfestir fái ekki fullnaðarendurgreiðslu, heldur einungis fjárhæð sem svarar til undirliggjandi fjármálagerninga á gjalddaga.
2.2.1 Almennt
Hlutabréf er skírteini um réttindi hluthafa í hlutafélagi. Þessi réttindi eru fjárhagsleg eignarréttindi sem ákveðin eru með lögum og samþykktum þess félags sem í hlut á. Hlutabréf eru viðskiptabréf og gilda um þau allar hefðbundnar reglur sem um slík bréf gilda, þ.á.m. um framsal.
Hlutabréf eru að öllu jöfnu áhættusamari en skuldabréf. Sú áhætta er einkum fólgin í því að verð á hlutabréfum sveiflast meira en verð skuldabréfa. Fjárfesting í hlutabréfum getur þó verið arðsamari en fjárfesting í skuldabréfum þegar til lengri tíma er litið og kemur ávöxtunin fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi birtist hún sem breyting á verði eða gengi viðkomandi hlutabréfa og í öðru lagi geta eigendur hlutafélaga átt von á því að fá greiddan arð af hlutabréfaeign sinni. Með því að dreifa hlutabréfaeign sinni með kaupum á mörgum ólíkum fyrirtækjum er hægt að draga verulega úr þeirri áhættu sem tengd er einstökum hlutafélögum.
2.2.2 Áhættuþættir
Fjárfestingaráhætta
Ekkert kröfuréttarsamband er á milli hluthafans og útgefanda hlutabréfsins, þ.e. félagsins, ólíkt skuldabréfum. Hluthafinn leggur fram hlutafé og eignast þar með hlutdeild í mögulegum hagnaði félagsins. Fjárfestingin er því háð rekstri félagsins og á fjárfestirinn á hættu að tapa allri fjárfestingunni ef allt fer á versta veg í rekstri félagsins.
Áhætta sem leiðir af gengissveiflum
Verðmæti hlutabréfa er afar sveiflukennt og eykur það hættu á því að fjárfestar bíði fjárhagslegt tjón af fjárfestingu sinni. Sveiflur á verðmæti hlutabréfa til skemmri og lengri tíma geta verið ófyrirsjáanlegar. Gera verður greinarmun á almennri markaðsáhættu og þeirri áhættu sem beint tengist félaginu sjálfu. Báðir áhættuþættir, saman eða hvor í sínu lagi, hafa áhrif á gengisþróun hlutabréfa.
Arðgreiðsluáhætta
Arður til hluthafa er háður afkomu félagsins. Ákvörðun um útgreiðslu arðs er að jafnaði tekin á hluthafafundi. Ef afkoma félagsins er slæm og hagnaður lítill eða enginn, kunna arðgreiðslur að minnka eða jafnvel falla niður.
2.3.1 Almennt
Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Rekstrarfélög geta einnig stofnað sjóði sem ekki veita viðtöku fé frá almenningi og gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Það eru til margar gerðir sjóða með mismunandi fjárfestingarstefnu og þær lagareglur sem um starfsemina gilda geta einnig verið mismunandi. Sjóðir eru ýmist opnir eða lokaðir. Í opnum sjóðum er heildarhlutafé ekki ákveðið fyrir fram, sem þýðir að fjöldi hluta og þátttakenda er ekki ákveðinn. Sjóðurinn getur gefið út fleiri einingar eftir eftirspurn og getur einnig innleyst einingar. Sjóðnum er skylt að innleysa einingar á tilgreindu innlausnarvirði og samkvæmt samningsákvæðum. Þegar um lokaða sjóði er að ræða þá er heildarhlutafé óbreytt nema ráðstafanir séu gerðar til þess að breyta því. Ólíkt opnum sjóðum er ekki innlausnarskylda á einingum í lokuðum sjóðum.
Fjárfesting í sjóðum getur falið í sér eftirfarandi áhættu og er fjárfestum ráðlagt að kynna sér fjárfestingarstefnu viðkomandi sjóðs áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin.
2.3.2 Áhættuþættir
Stjórnunaráhætta
Starfsemi og árangur einstakra sjóða er háður hæfni stjórnar hans og starfsfólks. Sjóðstjóri tekur yfirleitt ákvarðanir um fjárfestingar í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins. Ef samningi við sjóðstjóra eða lykilstarfsfólk er rift er ekki víst að það takist að ráða hæft starfsfólk án þess að sjóðurinn verði fyrir tapi. Þá geta rangar ákvarðanir leitt af sér tap.
Lagaáhætta
Um starfsemi einstakra sjóða getur farið eftir íslenskum eða erlendum lögum sem gæti þýtt að ákveðin fjárfestavernd eða hömlur á starfsemi sem eru í gildi í einu lögsagnarumdæmi eigi ekki við í ákveðnum tilvikum. Þá kann gildandi löggjöf að vera breytt með þeim hætti að áhrif hafi á starfsemi viðkomandi sjóðs eða verðmæti fjárfestingarinnar.
Skuldsetningaráhætta
Sumir sjóðir fjármagna ákveðna þætti starfsemi sinnar með lántökum. Slík skuldsetning getur aukið áhættu í starfsemi sjóðs og haft kostnað í för með sér sem gæti leitt til lækkunar á virði hlutar fjárfestis í sjóði.
Hætta á áhrifaleysi
Fjárfestir í sjóði hefur yfirleitt lítinn sem engan rétt til að taka þátt í og/eða hafa áhrif á starfsemi viðkomandi sjóðs.
Hætta tengd fjárfestingarstefnu
Fjárfestingarstefna sjóða getur verið mjög mismunandi. Sumir sjóðir eru sérhæfðir í fjárfestingum sínum og fjárfesta eingöngu í ákveðnum tegundum fjármálagerninga og/eða í ákveðnum löndum. Áhættan sem sjóðurinn ber er því fyrst og fremst tengd viðkomandi fjármálagerningum og löndum. Sumir sjóðir eru með skilgreinda fjárfestingarstefnu sem talin er mjög áhættusöm. Aðrir sjóðir fjárfesta á sviði þar sem mikil samkeppni ríkir og þar af leiðandi þar sem færri fjárfestingartækifæri eru fyrir hendi.
Verðmatshætta
Ef sjóður fjárfestir í eignum sem ekki eru auðseljanlegar getur verið erfitt að meta virði hlutdeildarskírteina/hlutabréfa hans.
Hætta tengd undirliggjandi eignum
Undirliggjandi eignir geta verið margvíslegar og varðað bæði kaup og skortsölu fjármálagerninga. Sjóður getur verið háður markaðsáhættu og áhættu sem fólgin er í fjárfestingarstefnu hans, s.s. fjárfestingum utan skipulegra verðbréfamarkaða, skortsölu fjármálagerninga og skuldsettum kaupum og/eða sölu, sem geta leitt til taps fyrir viðkomandi sjóð. Sú áhætta fjárfestis sem fólgin er í beinni fjárfestingu í hinum undirliggjandi eignum skiptir einnig máli við mat á þeirri áhættu sem fólgin er í fjárfestingu í viðkomandi sjóði.
Hætta á gengisfalli
Sjóðir fela í sér áhættu á gengisfalli og endurspeglar fallið lækkun á gengi fjármálagerninga eða gjaldmiðla sem mynda eignasafn sjóðsins. Því meiri sem eignadreifing sjóðsins er, því minni hætta er á tapi. Á móti kemur að áhættan er meiri í sérhæfðari fjárfestingum og þar sem eignadreifing er minni. Því er mikilvægt að gefa gaum að þeim almennu og sértæku áhættuþáttum sem fylgja þeim fjármálagerningum og gjaldmiðlum sem mynda sjóðinn. Fjárfestar geta m.a. aflað upplýsinga um sjóði með því að lesa lýsingar þeirra.
2.4.1 Almennt
Afleiður eru fjármálagerningar sem breytast að verðgildi eftir verðmæti undirliggjandi eignar. Hin undirliggjandi eign kann að vera fjármálagerningur, markaðsvísitala, vaxtastig, gjaldmiðill, hráefnisverð eða jafnvel önnur afleiða.
2.4.2 Valréttarsamningar (vilnanir)
Eiginleikar
Með valréttarsamningi (vilnun) (e. options) er átt við samning sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kauprétt) eða selja (sölurétt) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki (lokadegi) eða innan tiltekinna tímamarka (gildistíma valréttar). Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans. Allar breytingar á verðmæti andlagsins valda hlutfallslega meiri breytingu á verði valréttarins. Seljanda valréttarins ber óafturkræf skylda til þess að efna samninginn meðan kaupanda valréttarins er frjálst að nýta rétt sinn eða ekki.
Áhættuþættir
2.4.3 Staðlaðir og óstaðlaðir framvirkir samningar
Eiginleikar
Með framtíðarsamningi (e. futures) er átt við staðlaðan og framseljanlegan samning sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma. Oft er verðmæti framtíðarsamninga reiknað út daglega og samningsaðili reikningsfærður í samræmi við það. Með framvirkum samningi (e. forwards) er átt við óframseljanlegan samning þar sem kveðið er á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tilekna eign fyrir ákveðið verð á fyrirframákveðnum tíma. Uppgjör slíkra samninga getur ýmist falist í afhendingu á undirliggjandi verðmæti eða í fjárhagslegu uppgjöri. Hvort sem um er að ræða kaup á stöðluðum framvirkum samningi eða sölu á undirliggjandi eign er upphaflegt álag ákveðið um leið og samningurinn er gerður. Álagið er yfirleitt sett fram sem hundraðshluti af verðmæti samningsins. Almennt getur fjárfestir hvenær sem er á samningstímanum gert upp samninginn eða lokað honum fyrir samningslok, annað hvort með því að selja samninginn eða með því að gera mótstæðan samning. Uppgjör bindur enda á þá stöðu sem tekin hefur verið og hagnaður eða tap sem safnast hefur upp fram að uppgjöri er innleyst. Samningum sem ekki hefur verið lokað fyrir uppgjör verða aðilar að standa við. Samninga sem hafa áþreifanleg verðmæti sem undirliggjandi eign má efna með því að afhenda eignina. Ef eign er afhent þarf að efna samningsákvæðin að fullu, en ef gert er ráð fyrir samningsuppgjöri með reiðufé þarf aðeins að greiða mismuninn á samningsverðinu og markaðsverðinu á greiðslutíma. Því þurfa fjárfestar að hafa meira fjármagn tiltækt vegna samninga sem kveða á um afhendingu undirliggjandi eignar en vegna samninga sem kveða á um uppgjör með reiðufé.
Áhættuþættir
2.4.4 Skiptasamningar
Eiginleikar
Með skiptasamningi (e. swaps) er átt við samning sem kveður á um að hvor samningsaðila greiði hinum fjárhæð sem tekur mið af breytingum á hvoru viðmiðinu fyrir sig á samningstímanum. Nánar tiltekið skiptast samningsaðilar á greiðslum sem taka mið af breytingum á undirliggjandi viðmiðum, svo sem vöxtum eða gjaldmiðlum. Samningsaðilarnir ákveða við samningsgerðina hversu oft skiptin fara fram.
Áhættuþættir
2.5.1 Almennt
„Óhefðbundin“ fjárfesting er fjárfesting í innlendum eða erlendum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fylgir stefnu sem er allt öðruvísi en stefna um hefðbundnar fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum. Vogunarsjóðir („hedge funds“) eru algengasta óhefðbundna fjárfestingarformið. Fjárfestingarstefna þeirra felst oft í skortsölu, vogunaráhrifum og afleiðum. Fjárfestingar í sjóðum sem fjárfesta í óskráðum félögum falla einnig í þennan flokk (áhættufjármagn, fjármögnun fyrirtækjakaupa). Fjárfestir sem hefur áhuga á óhefðbundnum fjárfestingum, og sér í lagi aflandssjóðum, þarf að vera meðvitaður um þessa áhættuþætti. Áður en ráðist er í fjárfestingu þarf að grandskoða sjálfa fjárfestingarvöruna.
2.5.2 Áhættuþættir
Skuldsetning
Á þessum vettvangi kann fjárfestingarstefnan að tengjast háu áhættustigi. Til dæmis geta vogunaráhrif haft þær afleiðingar að smávægileg breyting á markaði leiði til mikils gróða eða mikils taps. Í sumum tilvikum getur farið svo að fjárfestingin glatist alfarið.
Upplýsingaskortur
Mjög oft hafa fjárfestar í óhefðbundnum fjárfestingum úr mjög litlum upplýsingum að moða. Fjárfestingarstefna sem sjóðir fylgja, sem kann að vera afar flókin, er oft og tíðum ógegnsæ fyrir fjárfesta. Stefnubreytingar, sem geta haft í för með sér verulega áhættuaukningu, eru oft óljósar fyrir fjárfestum, sem kunna jafnvel að vanmeta áhættuna illilega.
Hugsanlegur óseljanleiki
Óhefðbundnar fjárfestingar kunna að vera illseljanlegri en aðrar fjárfestingar. Stundum er seljanleikinn afar lélegur. Þannig er innlausn hluta í vogunarsjóðum aðeins möguleg ýmist á mánaðarlegum, ársfjórðungslegum eða árlegum grundvelli. Að því er varðar fjárfestingar í sjóðum sem kaupa óskráð hlutabréf kann binditíminn að vera allt að 10 ár eða meira.
Lágmarkseftirlit
Umtalsverður fjöldi sjóða á þessu sviði hefur bækistöðvar á aflandsfjármálamörkuðum (aflandssjóðir). Algengt er að slíkar aflandsstöðvar hafi lágmarkseftirlit með sjóðunum. Afleiðingin er sú að ýmiss konar vandkvæði eða tafir geta orðið við framkvæmd fyrirmæla um kaup eða sölu og ekki er hægt að kalla viðkomandi banka til ábyrgðar. Ekki er kerfislæg trygging fyrir því að ekki verði brotið á réttindum fjárfesta.
Komi upp ágreiningur milli viðskiptavinar og Arctica Finance getur viðskiptavinur sent Arctica Finance kvörtun. Með kvartanir er farið samkvæmt almennum starfsreglum Arctica Finance um meðferð kvartana. Kvörtun er hægt að bera fram með ýmsum hætti, s.s. með tölvupósti (kvortun hja arctica.is), bréfleiðis, með símtali eða á fundi.
Stefna Arctica Finance er að tryggja að kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Í því felst m.a. að:
Í almennum starfsreglum Arctica Finance segir um meðferð kvartana viðskiptavina:
Starfsmenn Arctica skulu bjóðast til að ræða við viðskiptavin sem kvartar, en það skal þó ekki vera skilyrði fyrir móttöku kvörtunar af hálfu viðskiptavinar. Viðskiptavini skal gerð grein fyrir að hann geti ávallt beint kvörtun sinni strax til framkvæmdastjóra félagsins eða regluvarðar.
Ef viðskiptavinur er ekki ánægður með úrlausn Arctica skal viðskiptavini bent á að hann getur beint kvörtun til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála eða leitað til dómstóla. Kvörtun má draga til baka á hvaða stigi sem er. Mál fellur niður ef Arctica og viðskiptavinur ná samkomulagi um lausn þess. Hægt er að fá frekari upplýsingar um úrskurðaraðila og málsmeðferðarreglur á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
... Tryggja skal rétta meðhöndlun persónulegra upplýsinga og hættu á hagsmunaárekstrum með aðgangsstýringum.
Viðskiptavinur getur skotið ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki:
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Guðrúnartún 1
105 Reykjavík
Sími: 578 6500
Netfang: fjarmal@nefndir.is
Fylla þarf út sérstakt málskotseyðublað og skila eða senda í pósti til skrifstofu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að óska eftir úrskurði nefndarinnar. Eyðublaðið má nálgast á skrifstofu nefndarinnar eða vefsíðu hennar . Nánari upplýsingar um nefndina, málskotsgjald, hverjir geta leitað til nefndarinnar o.fl. er að finna á vef nefndarinnar og vef Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum fjármálafyrirtækja í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Sjá nánari upplýsingar á vef Fjármálaeftirlitsins.
Neytendastofa er stjórnvald á sviði neytendamála sem annast framkvæmd ýmissa laga á sviði neytendaverndar. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn. Sjá nánar á vef Neytendastofu.
Aðilar geta lagt ágreining fyrir dómstóla.
Vakin er athygli á Tryggingarsjóði vegna fjármálafyrirtækja sem starfar skv. lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Markmið laganna er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði laganna. Sjá nánar lögin og frekari upplýsingar um sjóðinn, útgreiðslur o.fl. á vef Tryggingarsjóðs.
Hér má finna gjaldskrá Arctica Finance
Arctica Finance ber samkvæmt lögum að „hafa tiltækt samandregið yfirlit með upplýsingum um allan kostnað og gjöld“. Í þessu skyni gerir Arctica Finance m.a. hér aðgengilega kostnaðarhandbók svo viðskiptavinir geti áttað sig á heildarkostnaði og áhrifum á arðsemi fjárfestingar við kaup á hlutabréfum, skuldabréfum, í sérhæfðum sjóðum og fyrir eignastýringarþjónustu. Til einföldunar er ekki reiknað með neinni ávöxtun á fjárfestingartímanum í dæmunum.
Upplýsingar á vefsvæðum Arctica Finance eru birtar samkvæmt bestu vitund og veittar í upplýsingaskyni eingöngu, en skulu ekki nýttar á þeirri forsendu að um sé að ræða ráðleggingar eða ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga eða annað. Fjárfestar eru eindregið hvattir til að leita ráðlegginga eigin ráðgjafa, s.s. vegna lagalegrar eða skattalegrar stöðu sinnar, áður en nokkurs konar viðskipti eru framkvæmd. Viðskipti með fjármálagerninga eru áhættusöm í eðli sínu. Verðbreytingar í fortíð gefa ekki endilega vísbendingar um verðbreytingar í framtíð.
Arctica Finance vinnur með upplýsingar sem félagið telur réttar, en ábyrgist þó ekki áreiðanleika eða nákvæmni upplýsinganna. Upplýsingarnar og skoðanir eða túlkanir sem fram koma á heimasíðunni geta breyst án fyrirvara og sérstök athygli er vakin á því að áætlanir og spár geta breyst fyrirvaralaust á jákvæðan og neikvæðan hátt og eru háðar utanaðkomandi óvissu og breytum. Arctica Finance ábyrgist ekki að gera breytingar á þeim upplýsingum sem birtar eru á heimasíðunni ef forsendur þeirra breytast eða ef í ljós kemur að þær eru rangar eða ónákvæmar.
Hvorki Arctica Finance né stjórnendur eða starfsfólk félagsins bera ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hlýst af notkun á vef félagsins eða upplýsingum sem er að finna á heimasíðu Arctica Finance eða tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota vefinn, um skemmri eða lengri tíma.
Arctica Finance á höfundarrétt að upplýsingum á heimasíðunni, nema annað sé tekið fram eða verði leitt af eðli máls. Óheimilt er að dreifa upplýsingum sem finna má á heimasíðunni, afrita þær eða nýta með öðrum hætti án skriflegrar heimildar Arctica Finance. Viðskiptavinum Arctica Finance er þó heimilt að vista slíkar upplýsingar til einkanota.
Framangreindir fyrirvarar eiga einnig við um allar upplýsingar og efni sem sett er af hálfu Arctica Finance inn á samfélagsmiðla ef við á.
Tölvupóstar og viðhengi sem send eru frá netföngum Arctica Finance geta innihaldið trúnaðarupplýsingar og/eða einkamál og eru eingöngu ætluð þeim sem þau eru stíluð á. Sé efni tölvupósts og viðhengja ótengt starfsemi Arctica Finance er sendandi einn ábyrgur. Vakin er athygli á því að hvers konar upplýsingagjöf, afritun eða dreifing þeirra upplýsinga sem fram koma í tölvupóstum og viðhengjum er óleyfileg og kann að varða skaðabóta- og refsiábyrgð lögum samkvæmt, auk þess sem viðtakanda ber samkvæmt gildandi fjarskiptalögum að tilkynna sendanda hafi tölvupósturinn eða viðhengi hans ranglega borist honum. Í slíkum tilvikum vinsamlegast gætið fyllsta trúnaðar, tilkynnið sendanda um mistökin og eyðið tölvupóstinum og viðhengjum, án þess að geyma afrit, samanber lagaskyldu þar að lútandi samkvæmt 88. gr. laga nr. 70/2022, um fjarskipti.
Arctica Finance ber ekki ábyrgð á rangri eða ófullgerðri sendingu upplýsinga sem tölvupóstur kann að geyma, né heldur á töfum á afhendingu hans eða tjóni sem kann að verða á tölvukerfi móttakanda. Arctica Finance ábyrgjast hvorki öryggi tölvupósta né að þeir séu lausir við vírusa eða að íhlutun þriðja aðila hafi ekki átt sér stað.
Athygli er vakin á því að símtöl til og frá Arctica Finance kunna að vera tekin upp í samræmi við ákvæði laga, án sérstakrar tilkynningar í hvert sinn, en tilgangurinn er að tryggja öryggi viðskiptavina og Arctica Finance og leiðrétta hugsanlegan misskilning. Hið sama gildir um samtöl í gegnum aðra rekjanlega rafræna miðla.
Arctica Finance ber lögum samkvæmt að varðveita ýmis gögn, s.s. hljóðrituð símtöl og önnur rafræn samskipti, en slíkt skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og laga um fjarskipti. Að meginstefnu til er skylt að varðveita framangreind gögn í a.m.k. fimm ár. Skoðun og afhending gagna er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum Arctica Finance og yfirvaldi, s.s. lögreglu og eftirlitsstofnunum. Að öðru leyti er skylt að fara með varðveitt gögn líkt og með aðrar upplýsingar er lúta þagnarskyldu fjármálafyrirtækja.
Vefur Arctica Finance safnar ekki sjálfkrafa neinum persónurekjanlegum gögnum um notkun og notendur.
Persónuverndarstefnu Arctica Finance má finna hér.