Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn

María Rúnarsdóttir, stjórnarformaður

María Rúnarsdóttir stjórnarformaður er sjálfstætt starfandi fjárfestir. Áður starfaði María meðal annars sem fjármálastjóri fasteignafélagsins SMI ehf. og Korputorgs ehf., ráðgjafi hjá KPMG ráðgjöf og sem fjármálastjóri Svartækni ehf., auk þess sem hún er ein stofnenda MINT Solutions ehf. María situr í dag í stjórn nokkurra félaga, s.s. Fly Play hf., MRI ehf., NMR ehf., Umbra ehf., Uniconta Ísland ehf. og EA14 ehf. María er með MBA-gráðu frá MIT (Massachusetts Institution of Technology) í Bandaríkjunum og BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Erlendur Svavarsson, stjórnarmaður

Erlendur Svavarsson, stjórnarmaður, hefur starfað í fluggeiranum frá 1992 en þá hóf hann störf hjá Flugfélaginu Air Atlanta og síðar MD-flugfélaginu. Árið 2003 hóf Erlendur störf hjá Loftleiðum Icelandic ehf. og árið 2008 hóf hann störf hjá Icelandair Group sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar auk þess sem hann var framkvæmdastjóri hjá Loftleiðum Icelandic á árunum 2010 til 2023. Erlendur hefur verið framkvæmdastjóri AJW Capital, sem er alþjóðlegt fjárfestingafélag í flugtengdum iðnaði, frá 2024. Erlendur hefur setið í stjórnum ýmissa dótturfyrirtækja Icelandair Group og í dag situr hann í stjórn Leikbreytis ehf. og Biarmia slf. Erlendur er með BA-gráðu í rússnesku og hagfræði frá Háskóla Íslands, MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og AMP-gráðu frá Harvard Business School.

Þórir Kjartansson, stjórnarmaður

Þórir Kjartansson, stjórnarmaður, er byggingarverkfræðingur frá Háskóla Íslands 1993 og með MBA-gráðu frá IESE. Þórir hefur verið sjálfstætt starfandi fjárfestir frá 2000 í gegnum Íslenska fjárfestingu ehf. sem hann á og rekur í samstarfi við annan mann. Þórir hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum og má þar nefna að setu hans í stjórn Landspítalans – Háskólasjúkrahúss til nokkurra ára. Þá hefur Þórir setið í stjórn ýmissa fyrirtækja og situr í stjórn Íslenskrar fjárfestingar ehf. og ýmsum dótturfélögum þess.

Gísli Þór Arnarson, varamaður

Gísli Þór Arnarson varastjórnarmaður er með BSc-gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá University of Louisville í Bandaríkjunum. Gísli Þór er framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa en var forstöðumaður í innflutningsdeild Samskipa á árunum 2006-2012. Áður starfaði Gísli Þór í þrjú ár sem viðskiptastjóri í innflutningsdeild Eimskips og önnur þrjú ár þar á undan starfaði hann við verkfræði og viðskiptaráðgjöf hjá The Corradino Group.

Þórhalla Sólveig Jónsdóttir, varamaður

Þórhalla Sólveig Jónsdóttir varastjórnarmaður er með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands í viðskiptafræði, með áherslu á markaðs- og stjórnunarsvið, og MCF-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún er með próf í verðbréfaviðskiptum. Þórhalla Sólveig var forstöðumaður miðvinnslu hjá Icebank 2007-2009 og forstöðumaður kröfuferlis hjá slitastjórn LBI 2009-2018. Þá situr Þórhalla Sólveig í stjórn Máleflis, hagsmunasamtaka í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun, og var skipuð í stýrihóp á vegum Heilbrigðisráðuneytisins við vinnu um samþættingu á þjónustu við börn sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda.

Stjórnarhættir

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki ber Arctica Finance hf. að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Stjórn Arctica Finance fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Góðir stjórnarhættir stuðla að bættum vinnubrögðum og samskiptum sem eykur traust milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila.

Stjórnun og yfirráð yfir Arctica Finance skiptast á milli hluthafa, stjórnar og framkvæmdastjóra í samræmi við samþykktir félagsins, reglur stjórnar og önnur tilmæli stjórnarinnar. Þá lýtur stjórnun og yfirráð félagsins ýmsum lögum og reglum, þ.m.t. lög um hlutafélög, lög um fjármálafyrirtæki, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármála­fyrirtækja og reglur Kauphallar, auk ýmissa leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins. Nánari útlistun á lögum, reglum, reglugerðum og leiðbeinandi tilmælum er að finna á vef Fjármálaeftirlitsins.


Stjórnarháttayfirlýsingar

Árlega gerir Arctica Finance úttekt á því hvort stjórnarhættir félagsins séu í samræmi við viðurkenndar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Í kjölfarið er birt yfirlýsing um stjórnarhætti Arctica Finance í sérstökum kafla í ársreikningi sem má finna hér að neðan. Það er einnig fjallað um stjórnarhætti Arctica Finance í ársskýrslu félagsins.

Stjórnarháttaryfirlýsingar Arctica Finance:


Starfsreglur stjórnar

Starfsreglur stjórnar Arctica Finance eru settar á grundvelli 70. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 18. gr. samþykkta félagsins með hliðsjón af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2010 og viðmiðunarreglum evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA). Starfsreglurnar taka jafnframt mið af fyrrgreindum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. 

Starfsreglur stjórnar

Samþykktir

Hér má finna samþykktir Arctica Finance.

Samþykktir Arctica Finance

Starfskjarastefna

Stjórn Arctica Finance ber að samþykkja starfskjarastefnu og er hún árlega borin undir aðalfund félagsins.

Starfskjarastefna


Ársreikningar

Ársreikningur Arctica Finance er gerður í samræmi við lög um ársreikninga og reglur um reikningsskil verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana.

Sjálfbærni

Arctica Finance skrifaði í september 2020 undir sameiginlega viljayfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar og aðila sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði, um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Með því skuldbatt Arctica Finance sig til að taka tillit „til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér.“ Þar má nefna markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030. 

Eftir atvikum er einnig litið til ESG/UFS, meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), UN Global Compact ofl.“ Arctica Finance hefur síðan í janúar 2019 verið aðili að IcelandSif, sem er fræðsluvettvangur ábyrgra fjárfestinga sem stuðlar að því að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Árlega tekur Arctica Finance saman skýrslu um ófjárhagslegar upplýsingar er tekur á UFS-þáttum og er hún birt í sérstökum kafla í ársreikningi sem má finna hér að neðan.

Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2023
Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2022
Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2021

Upplýsingagjöf vegna áhættu tengdri sjálfbærni

Gagnsæi í áhættustefnu um sjálfbærni (3. gr. SFDR)

Á grundvelli laga nr. 25/2023, um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, hefur reglugerð ESB nr. 2019/2088, um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu, (SFDR) verið innleidd.

Samkvæmt 3. gr. SFDR skulu aðilar á fjármálamarkaði birta á heimasíðu upplýsingar um stefnur sínar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvörðunartökuferli þeirra. Þá skulu fjármálaráðgjafar birta á heimasíðu upplýsingar um stefnur sínar um hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarráðgjöf þeirra. Arctica Finance veitir í dag ekki eignastýringarþjónustu, en sinnir fjárfestingarráðgjöf og telst því vera fjármálaráðgjafi með vísan til framangreinds, en telst ekki vera aðili á fjármálamarkaði.

Áhætta tengd sjálfbærni er „atburður eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti, ef hann gerist, haft raunveruleg eða hugsanleg veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar“ samanber 22. tölul. 2. gr. SFDR.

Arctica Finance hefur stefnu er tekur á ábyrgum fjárfestingum og í henni segir m.a. að ábyrgar fjárfestingar séu fjárfestingaraðferðir sem taka mið af UFS atriðum við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Formlegt samræmt mat á UFS þáttum við mat á fjárfestingarkostum hefur ekki verið innleitt að fullu, en aftur á móti er tekið tillit til þeirra upplýsinga um sjálfbærniþætti sem liggja fyrir við almennt mat fjárfestingarkosta.

Arctica Finance hefur og mun halda áfram að vinna að innleiðingu SFDR í starfsemi félagsins.

Gagnsæi í tengslum við neikvæð áhrif á sjálfbærni á einingastigi (e. Principal Adverse Impact on sustainability factors, PAI) (4. gr. SFDR)

Sjálfbærniþættir eru „umhverfis-, félags- og starfsmannatengd mál, virðing fyrir mannréttindum og mál sem varða baráttuna gegn spillingu og mútum“ samanber 24. tölul. 2. gr. SFDR. Með helstu neikvæðu áhrifum er almennt átt við þau neikvæðu áhrif sem fjárfestingarákvörðun getur haft á ofangreinda þætti.

Fjárfestingar á fjármálamarkaði eru almennt í fjármálagerningum útgefnum af fyrirtækjum, opinberum aðilum og öðrum útgefendum. Starfsemi þessara útgefenda hefur óhjákvæmilega áhrif á sjálfbærni sem varða fjárhagslega þætti, umhverfisþætti og félagslega þætti (UFS). Áhrifin geta verið neikvæð og/eða jákvæð.

Samkvæmt 4. gr. SFDR skulu fjármálaráðgjafar birta og uppfæra á heimasíðu upplýsingar um hvort þeir, að teknu tilliti til stærðar sinnar, eðlis og umfangs starfsemi og þeirra tegunda fjármálaafurða sem þeir veita ráðgjöf um, taki tillit til helstu neikvæðu áhrifanna á sjálfbærniþætti í ráðgjöf sinni um fjárfestingar. Ef þeir taka ekki tillit til neikvæðra áhrifa af fjárfestingarákvörðunum á sjálfbærniþætti í fjárfestingarráðgjöf sinni, skal einnig upplýsa um það og, ef við á, upplýsingar um hvort og hvenær þeir hyggjast taka tillit til slíkra neikvæðra áhrifa.

Arctica Finance tekur sem stendur ekki tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana og fjárfestingarráðgjafar á sjálfbærniþætti. Athugun á neikvæðum áhrifum fjárfestingarákvarðana og fjárfestingarráðgjafar á sjálfbærniþætti krefst endurnýjunar á gildandi innri ferlum, aukinnar gagnasöfnunar og mælinga ásamt ófjárhagslegum upplýsingum félaga og útgefenda sem fjárfest er í.

Þessir ferlar hafa enn ekki verið þróaðir og telur Arctica Finance sig ekki geta framkvæmt hæfilegt mat á neikvæðum áhrifum fjárfestinga á sjálfbærniþætti á meðan ófjárhagslegar upplýsingar eru enn af skornum skammti og gæði þeirra oft og tíðum ófullnægjandi. Er unnið að því að meta hvernig standa eigi að söfnun og vöktun gagna til að meta neikvæð áhrif fjárfestinga á sjálfbærniþætti eftir stærð og tegund útgefenda og mismunandi fjármálagerningum, fjármálaafurðum og fjárfestingarstefnum.

Fylgst verður með áframhaldandi þróun á regluverki tengt sjálfbærni. Samhliða því mun Arctica Finance leitast við að þróa ferla þegar fram líða stundir, sem gera félaginu kleift að safna og mæla helstu neikvæðu áhrif sjálfbærniþátta eftir því sem aðgengi að gögnum eykst og upplýsingagjöf batnar.

Gagnsæi starfskjarastefnu í tengslum við hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn (5. gr. SFDR). Samkvæmt 5. gr. SFDR skulu aðilar á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafar hafa upplýsingar í starfskjarastefnu sinni um hvernig sú stefna samræmist innfellingu áhættu tengdri sjálfbærni og birta þær upplýsingar á heimasíðu sinni.

Í starfskjarastefnu Arctica Finance kemur fram að hún miði að því að Arctica Finance sé samkeppnishæft og eftirsóknarverður kostur fyrir hæft og framúrskarandi starfsfólk, og þar með tryggja samkeppnishæfni félagsins, framþróun og viðunandi arðsemi. Starfskjarastefnunni er ætlað að stuðla að heilbrigðum rekstri til lengri tíma litið og hvetja ekki til óeðlilegrar áhættusækni. Áhersla er lögð á að starfskjör séu samkeppnishæf en þó ekki leiðandi og við ákvörðun um starfskjör skuli horft til ábyrgðar og starfsreynslu. Í starfskjarastefnu felast jafnframt markmið um að traust ríki um stjórn og starfsemi Arctica Finance, að félagið fylgi góðum stjórnarháttum og sýni af sér samfélagslega ábyrgð. Markmiðið er jafnframt að hugað sé að orðspori og trúverðugleika Arctica Finance, og að starfað sé í samræmi við þau viðmið, gildi og viðskiptasiðferði sem eðlilegt er að gildi um fjármálafyrirtæki á Íslandi.

Í gildandi starfskjarastefnu er ekki vikið að því hvernig stefnan tekur á áhættu tengdri sjálfbærni. Það er mat Arctica Finance að framangreind ákvæði og önnur ákvæði stefnunnar styðji við hóflega áhættutöku og þá menningu að horft sé til sjálfbærniáhættu í starfsemi Arctica Finance. Hins vegar er miðað við að ákvæði með beinni tilvísun til sjálfbærni verði sett inn í starfskjarastefnu Arctica Finance á næsta aðalfundi félagsins vorið 2025.

Gildandi starfskjarastefna Arctica Finance er aðgengileg hér að framan.

Skipurit