22.4.2025

IS Haf fjárfestir í KAPP

Elfa Valdimarsdóttir og Freyr Friðriksson eigendur KAPP, Kristrún Auður Viðarsdóttir framkvæmdastjóri IS Haf og Brynjólfur Gísli Eyjólfsson sjóðsstjóri IS HAF og Runólfur Guðmundsson framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Undirritað hefur verið samkomulag um kaup IS HAF fjárfestingar slhf. á 40% hlut í íslenska tæknifyrirtækinu KAPP. Til viðbótar ætlar sjóðurinn að leggja félaginu til aukið hlutafé til frekari vaxtar.

IS Haf fjárfestingar slhf. er nýr sjóður í rekstri Íslandssjóða hf. sem fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni. Sjóðurinn er 10 milljarðar að stærð en stærstu fjárfestar sjóðsins eru íslenskir lífeyrissjóðir, Brim hf. og Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum.

KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, framleiðslu, sölu og þjónustu á ýmsum tækjabúnaði fyrir sjávarútveginn, fiskeldi og annan iðnað. Félagið er auk þess umboðs- og þjónustuaðili erlendra framleiðenda á vörum sem tengjast starfsemi félagsins.

„Forskot í framþróun kælibúnaðar fyrir sjávarútveginn, öflug uppbygging stofnenda KAPP og veruleg vaxtartækifæri er grundvöllur fjárfestingar IS Haf í KAPP. Sú þekking, reynsla og sérhæfing sem býr í mannauði KAPP er framúrskarandi og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfulla vegferð í vexti félagsins í haftengdri tækni bæði innanlands sem utan," segir Kristrún Auður Viðarsdóttir framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.

Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance var ráðgjafi KAPP í tengslum við fjárfestingu sjóðsins.

❮ til baka